Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Faustino I 1996

Svört kisrsuber, krækiber, blautur hnakkur, píputóbak, heystabbi í útmánuði, olíuborinn mahogniviður... runnið saman í eina heild sem minnir á menningarlegt sveitasetur eða klaustur, jafnvel Flateyjarbók. Mikil fylling, langt eftirbragð með dimmum jarðartónum. Þriggja ára geta vín verið fersk, frökk og falleg, en þegar vel gerð vín úr góðum árgangi eru farin að nálgast fermingaraldur verður til eitthvað nýtt sem lyftir þeim í æðra veldi. Ávöxtunarkrafa víniðnaðarins otar að okkur alls kyns ungum tískuvínum. Það getur verið skemmtilegt og tilbreytingarríkt, en við ættum ekki að láta það rugla okkur í ríminu og gleyma því hvað þroskuð eðalvín eru fáguð og góð (vandinn er bara sá hvað þau eru fjandi dýr). Hugurinn hvaflar til Gunnars Gunnarsonar og Skriðuklausturs (ég man nú reyndar ekki hvort gamli maðurinn smakkaði það yfirhöfuð). Faustino I 1996 er því himnasending, Château Ausone á tilboði í Bónus. Silkimjúkt, þurrt, sýruríkt og ferskt. Með þessu víni þarf að vanda valið á matnum. Ég mæli með grilluðu frampartsfilleti (eða eins og ameríkaniseraðir kjötiðnaðarmenn vorra daga segja: lamba rib eye. Hvar eru nú orðanefndirnar!?). Krydda vel með sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar og sleppa öllu öðru meðlæti nema kannski smá flís af hvítlaukssmjöri. Besta vín sem ég hef smakkað á árinu. Kostar 1990 í Ríkinu, frábær kaup.

Rauðvín, Spánn, Rioja-hérað, flokkun: Gran Reserva  

 

 


Château Suduiraut Sauternes 2002

Glæsilegt og fjölhæft eftirréttavín. Bitter appelsínumarmelaði, apríkósur, hunang, og beiskir eplasteinar. Bragðsterkt, höfugt, þykkt, mikil fylling og langt eftirbragð. Að sjálfsögðu mjög sætt, en beiskjan og þokkaleg sýra vinna vel á móti og lyfta því um margar hæðir. Frábært með köldu, frísku, sýrumiklu ávaxtasalati t.d. úr eplum, appelsínum og perum og ekki skaðar að hafa sítrónufrómas með. Smellpassar líka með gæsa- og andalifrarkæfu og rocquefort-osti. Algjört nammivín fyrir nammigrísi og hinir lyfta brúnum og brosa líka. Dýrt, kostar 5.190 kr í Ríkinu, en hér er um að ræða einn af risunum í franskri víngerð, geymist vel í ísskáp.

Sætt hvítvín, Frakkland, Bordeaux-hérað, Sauternes-svæði, flokkun: Premier Cru Classé  


D'Arenberg Hermit Crab 2004

Apríkósur, rjómakaramellur og smá rabbabari og hvannarrót. Góð fylling og eftirbragð, áfengt og dáldið feitt, merkjanlegur beiskjublær, en mjög gott jafnvægi milli sýru, sætu og beiskju. Smellpassar með krabbakjöti, gott með humri í hvítlaukssmjöri, gengur þokklega með með skötusel og smokkfiski í mildri karrísósu (en stendur þar ekki Alsace gewürztraminer á sporði), passar alls ekki með gufusoðnum aspas (með honum þarf víst sauvignon blanc). Mjög gott hvítvín, franskur uppruni, áströlsk útfærsla, kostar 1600 kr í Ríkinu, góð kaup.

Hvítvín, Suður-Ástralía, McLaren-dalur.


Guelbenzu Lombana 2005

Kirsuber, leður, tóbak og nýtt hey er það fyrsta sem kemur í hugann. Hefur göngulag eins og bóndi frá Rioja en fötin eru örugglega úr Zara. Passar með grilluðu lambi, júróvisjón og kosningum um helgina. Bragðsterkt, með miklu berjabragði, sem ennþá er dáldið hrátt eins og af nýrri saft. Langt eftirbragð með jarðartónum og dökkum pipar. Meðalfylling, mjúk en samt örlítið krydduð. Góð sýra, smá stemma, greinileg eik, en ekki yfirþyrmandi, engin vanilla, gott jafnvægi. Kostar 2.490 kr í Ríkinu.

Rauðvín, Spánn, Aragón-hérað, Ribera del Queiles-svæði, flokkun: Vino de la Tierra, þrúgur: 27% graciano, 24% tempranillo, 20% syrah, 15% merlot, 14% cabernet sauvignon, þroskun: frönsk og amerísk eik til helminga í 10 mánuði, frekari upplýsingar: www.guelbenzu.es


Château Greysac 2003

Enginn aristókrat, en gildur Borðeyrarbóndi og góður fulltrúi fyrir sína sveit. Tjara, lakkrís, gúmmí, brennisteinn, kirsuber(?), sólber(?), alla vega dökk ber, ósultuð, en frekar dauf. Tæp meðalfylling, mjúk, hvelfist yfir alla tunguna, tiltölulega langt eftirbragð með tjörukeim og jarðartónum. Hæfilega sætt, sýra með minna móti enda heitt þetta sumar, örlar á einhverri beiskju, eins og úr berjahrati eða apótekaralakkrís, tannín nokkuð þroskuð og mjúk en samt smá stemma. Tjaran, brennisteinninn, beiskjan og sýruskorturinn valda dálitlu ójafnvægi í byrjun, en allt eru þetta eðlileg blæbrigði og vínið vex við að standa og venst vel á tungu. Tilbúið til drykkju. Stóð sig vel með lambakjöti og ætti líka að passa með nautakjöti og dökku fuglakjöti. Miðað við verð er þetta merkilega gott vín sem tekur ekki ofan fyrir neinum verksmiðjuframleiðendum úr nýja heiminum. Kostar 1550 kr í Ríkinu.

Rauðvín, Frakkland, Bordeaux-hérað, Médoc-svæði, flokkun: Cru Bourgeois Supérieur. 


Mourgues du Grès Terre d'Argence 2004

Krækiber, lyng, kryddjurtir, tjara, pipar. Mikil og mjúk fylling en samt heitt og kryddað eftirbragð. Áfengt, þykkt, dáldið sætt, smá stemma, örlar á beiskju í ætt við krækiberjahrat, góð sýra, virkar lítið eikað þótt tjörukeimurinn bendi til annars, sprittið kemur í gegn, matarleg uppbygging, fínt jafnvægi. Kostar 1900 kr. í Rikinu. Góð kaup. - Sem sagt: Suðurfrönsk sveitasæla. Af hverju búum við hér?

Rauðvín, Frakkland, Languedoc-hérað, Costières de Nimes-svæði


Höfundur

Steinar Þór Guðlaugsson

Um bloggið

Vín í Ríki og Fríhöfn

Umsagnir um vín sem fást í Ríkinu

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband