Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
17.6.2007 | 21:16
Chapoutier Saint-Joseph Deschants 2004
Rúbínrautt með glærri rönd. Ilmur af lyngi, lakkrís og rauðum ávöxtum. Frekar sterkt bragð af rifsberjum, rabbarbara, lakkrís, lyngi og svörtum pipar, ávöxturinn ennþá frekar óþroskaður og saftkenndur. Sólbakað síðdegi í suðurfrans. Meðalfylling, mjúkt og þokkalega langt eftirbragð með örlítið pipruðum lyng- og lakkrískeim. Sýran er í tæpu meðallagi og dregur það aðeins úr ferskleikanum, örlar á sætu, stöm slikja, en tannín eru þroskuð og mjúk. Bragðstyrkurinn og ákveðið lakkrísbragðið gefur dimman og dáldið krefjandi blæ. Gott matarvín. Passar ágætlega með jurtakrydduðum plokkfiski í tartalettum með loki úr geitosti. Ágætt líka með beikoni og ólívum í hvítlauksolíu, en þolir illa edik og balsamic. Tilbúið til drykkju en þolir nokkur ár í viðbót. Kostar 2.490 kr í Ríkinu.
Rauðvín, Frakkland, Rhône-dalur, Saint-Joseph svæði, á vesturbakka árinnar milli Mauves og Tournon og beint á móti Hermitage.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)